Agentinn talar
Lag og texti: Halli Reynis

Engum sel ég feigðarför,
fals úr gæfu brunni.
Aðeins bætt og betri kjör,
bugaðri alþýðunni.

Þrættu ei fyrir þrældóminn,
þrot á lífsins gjaldi.
Beygðar sálir, barlóminn,
beittu ofurvaldi.

Allra bíður ófrelsið,
innri bældur friður.
Líf þitt fær að leika við,
leggðu vopnin niður.

Þreytan magnast, þróttur dvín,
í þjáðum krepptum höndum.
Snjórinn liggur eins og lín,
líf í klakaböndum.

Finndu önnur fiskimið.
Finndu skóg og engi.
Finndu lífið leika við,
ljúfa hjarta strengi.

Lævíst valdið leikur sér,
lúmskur dalafriður.
Kotbændanna krafa er
klofin í herðar niður.

Kauptu af mér far.
Kauptu af mér far.
Kauptu af mér far,
til Ameríku.

Engum sel ég feigðarför,
fals úr gæfu brunni.

Aðeins bætt og betri kjör,
bugaðri alþýðunni.
Þrættu ei fyrir þrældóminn,
þrot á lífsins gjaldi.

Beygðar sálir, barlóminn,
beittu ofurvaldi.

Kauptu af mér far.
Kauptu af mér far.
Kauptu af mér far,
til Ameríku.

Sá er lífið sigur gaf,
siglir voðum þöndum.
Bátnum út á ballarhaf,
burt frá Íslands ströndum.