Lag & texti: Halli Reynis

Fyrir guðinn sem við trúum á
við tilbiðjum og hneigjum.
Einn er alveg einstakur
uppalinn í Eyjum.

Sé lífið fúlt og innantómt
sé farið allt í hnút.
Þá losar hann þig við ósómann
þú fríkar alveg út.

Þú mætir með plötur þínar,
ég mæti með mínar.
Fyrir guðs hönd mætir presturinn
með eldspýturnar sínar.

Ef öll við hendum á brennuna
mun brennan verða stór
svo dönsum við fyrir guð
og syngjum öll í kór

Látum diskana brenna,
það óþarfa plott
og afmáum í leiðinni
syndarans glott
og ómenningu alla,
sem yfir okkur flæðir.
Í laumi hlær presturinn
og græðir og græðir.

Ef guði þú hleypir inn til þín
mun sólin eilfít skína.
Þeir predika þá yfir þér,
fyrir peningana þína.

Farir þú á samkomur
þú hreinsast smátt og smátt
og líf þitt verður allt í lit
þó aldrei bleikt og blátt

Sértu kannski karlmaður
fyrir karlmenn aðra gefinn
munt þú verða bænheyrður
og synd þín fyrirgefin

Og áður en þú veist
ertu einn af guðs sonum
og draumar þínir drengur
munu drukkna í berum konum.

Látum tímaritin brenna,
það óþarfa plott
og afmáum í leiðinni
syndarans glott
og ómenningu alla,
sem yfir okkur flæðir.
Í laumi hlær presturinn og græðir og græðir.