Á bæjunum í kringum fjörðinn,
er lifað í ró og spekt.
Bændur rækta svörðinn
og lífið er huggulegt.

Í návist hafs og fjalla,
er viska mannsins rík.
Í sannleika mætti það kalla,
sveitarómantík.

Þar er samstaða, kurteist fólk,
þar leitar andinn að sáttum.
Þau framleiða kjöt og framleiða mjólk,
með drauma úr öllum áttum.

Innst inn í dalnum er beitin,
menn kveða að orði fast.
“Að hvergi sé fegurri sveitin,
með fjúkandi rúlluplast”

Þar standa menn saman og falla,
á þessum dýrðarstað.
Fólkið veit allt um alla
og örlítið meira en það.

Þar vita menn allt um eldi,
hreinræktuð úrvals kyn.
Fullkomið feðraveldi,
með lausnir fyrir okkur hin.