Hann Halli bróðir var einstakur. Ég held að hann hafi verið flestum kær sem honum kynntst. Ég var sex ára og Linda systir fimm ára þegar tvíburarnir Halli og Gulli fæddust og það var nú meira fjörið á heimilinu þegar þeir stækkuðu. Það var mikið hlegið, púkast og minningarnar eru svo margar og góðar. Æskan var skemmtileg með þá á heimilinu. Við ólumst upp á ástríku heimili og það var nánast aldrei lognmolla í kringum strákana. Þeir voru svo líkir að vinir og ættingjar áttu erfitt með að þekkja þá í sundur. Eins og þegar Ranka frænka var að passa okkur og það þurfti að baða drengina og þá var annar baðaður tvisvar og þótti þeim það mjög fyndið. Vinir komu og spurðu um annan hvorn þeirra með nafni og ef hann var ekki heima þá var sagt: „Er hinn tvíburinn heima?“ Þeir voru mjög nánir og æskan leið í fótbolta og öðrum leikjum.

Halli átti gott með að koma orðum í ljóð og var þá oft það sem honum var hugstæðast hverju sinni sem hann orti um. Hann átti líka mjög auðvelt með að búa til falleg lög utan um textana sína. Eftir Halla liggja fjölmörg lög sem munu hljóma áfram um ókomna tíð. 

Hann kynnist Steinu sinni ungur og seinna urðu þau hjón. Hann elskaði Steinu mjög mikið og sagði stundum „sjáðu hvað hún er falleg“ eða „hún er alveg einstök, það er engin eins og hún“. Þau Halli og Steina eignuðust þrjá drengi; Steinar, Reyni og Sölva. Halli var svo stoltur af drengjunum sínum og var þeim góður faðir. Hann hafði svo gaman af því hvað þeir voru ólíkir drengirnir hans og hvað þeir eru vel gerðir þessi drengir. Halli brosti sínu stóra brosi og augun ljómuðu þegar hann talaði um fjölskylduna sína og ekki síst hvað hann hlakkaði til að verða afi sem var mjög stutt í að hann yrði. Hann elskaði sveitina í Laxárdal og þau Steina byggðu þar sumarhús fyrir fjölskylduna sína. Halli átti ekki erfitt með að hrósa fólki og hvetja það áfram. Hann kláraði kennaranám og varð tónlistarkennari í Ölduselsskóla. Halla þótti gaman að vinna með börnunum og hann ljómaði þegar hann var að tala um verkefni sem hann var að vinna með þeim. Honum þótti þau vera svo dugleg og frábær. Hann hafði svo gaman af fólki sem varð á vegi hans og hann var fljótur að kynnast því og eignast vini. 

Hann var skemmtilegur sögumaður, með ótrúlegt ljóðaminni og sögustundirnar eru margar og góðar. Hann var svo góður maður hann Halli, stór sál og gaf svo mikið af sér. Ég á honum svo margt að þakka, því Halli var svo góður bróðir. Kæra fjölskylda, Steina, Steinar, Reynir, Sölvi, Íris og Alda, mamma og pabbi, Linda og Gulli og fjölskyldur, það er erfitt að skrifa þetta og kveðja hann Halla okkar, en lífið er eins og konfektkassi, sagði einhver og molarnir eru misgóðir. 

Hjördís systir. 

Elsku Halli.