Lag & texti: Halli

Ég hef verið oft hér áður
og ég veit hvað það er sem bíður.
Eitthvað sem aldrei kemur,
á meðan einmana nóttin líður.
Í skugga ég hími úti í horni,
horfi á andlitin eitt og eitt.
Andrúmsloftið er afslappað,
eitraðri dásemd skreytt.

Inn kemur miðaldra maður,
í myrkrinu nálgast mitt borð.
Spyr hvort hann megi setjast
– ég segi ekki orð.
Hann talar um veðravítið,
hvort verði hér fjölmennt í kvöld,
hve nöturlegt er í nepjunni,
því nóttin er svo köld.

Þú getur verið vinur minn,
við getum setið hér saman um sinn
og sungið þann söng sem okkur er kær.
Ég hef séð þig oft hér áður
og ég veit hverju þú ert háður.
Ég sá þig seinast í gær.

Húsið fyllist af fólki,
í fríkuðum næturleik.
Mannhafið er mergjað,
mettað af skvaldri og reyk.

Sá gamli segir mér sögur,
það sefar hans einmana sál.
Allar heimsins hörmungar,
eru honum hjartans mál.

Þú getur verið vinur minn,
við getum setið hér saman um sinn
og sungið þann söng sem okkur er kær.
Ég hef séð þig oft hér áður
og ég veit hverju þú ert háður.
Ég sá þig seinast í gær.

Fer ég brátt að fara,
feginn að komast heim.
Kveð minn vin með virktum,
og hans vonir um batnandi heim.
Hann stendur upp frá stólnum,
stefnir á annað borð,
spyr hvort hann megi setjast,
það segir engin orð.

Og hann talar um veðravítið,
hvort verði hér fjölmennt í kvöld,
hve nöturlegt er í nepjunni,
því nóttin er svo köld.