Leiðin er löng , geislaplata Halla Reynis. Lög og textar eru eftir Halla Reynis, nema textinn Söngur galeiðuþrælanna sem er eftir Davíð Stefánsson. Halli Reynis flytur tónlistina einn en Jón Skuggi tók upp og hljóðblandaði. Haraldur Reynisson gefur út.

ÞAÐ ERU þrettán ár síðan Halli Reynis gaf út sína fyrstu geislaplötu, Myndir, í félagi við Þorvald Flemming. Hann hefur síðan haldið sínu striki, gefur reglulega út og kannski einn fárra sem standa raunverulega undir nafni sem trúbadorar, ferðast með gítarinn og syngur fyrir landsmenn.

Geislaplatan Leiðin er löng er sú fyrsta þar sem Halli Reynis flytur alla tónlist einn með gítar og munnhörpu. Þetta er nokkuð sem fer tónlistarmanninum vel, enda er hann vanur að koma einn fram og er öruggur þótt engin sé hljómsveitin til að styðja hann. Röddin fær líka að njóta sín betur og áberandi er hvað Halli þekkir hana betur orðið, og takmörk sín sem söngvari, en þegar hann lét í sér heyra í sér fyrst.

Það er rólegur, jafnvel angurvær tónn á plötunni, án þess þó að vera þungur eða niðurdrepandi. Textarnir eru hversdagsspeki, draga upp einfaldar og skýrar myndir, líkt og Halli Reynis er raunar þekktur fyrir. Það eru þó ekki textarnir sem eru málið á þessari plötu Halla heldur hljómurinn og áreynsluleysið. Halli rær á svipuð mið og Bubbi gerði fyrir um tuttugu árum, einkum á Konuplötunni svokölluðu, hann pikkar gítarinn og næstum raular með. Það er erfitt að benda beint á það hvað hefur breyst en tónlistin virðist laus við einhverja þvingun sem stundum hefur heyrst hjá Halla.

Að því sögðu verður þó að segjast að platan er ekki fullkomin, hún rennur í gegn, áheyrileg á meðan hún hljómar en er kannski ekki eftirminnileg þegar hlustuninni er lokið. Það er ekkert slæmt lag á geislaplötunni, lög á borð við “Aldrei einn”, sem fjallar um sjómannsdauða, og “Söng galeiðuþrælanna” eru prýðileg lög, og blúsinn “Ástin er einföld” kannski það besta. En það vantar, að mati þess sem skrifar, eitt eða tvö lög sem brjóta plötuna upp.

Leiðin er löng er tilraun sem heppnast vel og eitthvað sem Halli Reynis mætti kanna betur. Hann hefði a.m.k. mátt gera þetta fyrr, þ.e. að leggja ekki á sig alla þá vinnu sem kostar að útsetja og fara í hljóðver með heila hljómsveit. Tónlistin nýtur sín jafn vel, eða betur, strípuð líkt og hún var samin.

Gísli Árnason