Söngvaskáldið og einyrkjann Halla Reynis þarf ekki að kynna, en hann hefur verið lengi að og að góðu kunnur.
Hann kemur hér með sína fjórðu sólóplötu, þá fyrstu í sjö ár, en síðasta plata Halla, Trúbatúr, kom út 1997. Í millitíðinni kom út platan Myndir sem hann gerði árið 2000 í félagi við Þorvald Flemming. Halli er í fantagóðu formi á þessari plötu, og ekki skemmir fyrir að hann hefur fengið þungavigtarmenn til liðs við sig; Jón skugga, sem plokkar kontrabassann eins og honum einum er lagið, hinn glæsta trymbil Erik Qvick, sem meðal annars hefur leikið með B3 tríóinu, og snilldarbrúkun hans hér á burstunum gefur tónlistinni mjög skemmtilegan hljóm, og gítarleikarann Örn Hjálmarsson, sem sýnir feiknagóða takta.
Slidegítarleikur KK er svo hreint út sagt frábær, þar er ekki verið að gera einhverjar rósir heldur bara nákvæmlega það sem passar og þjónar hverju lagi, handbragð meistara KK í hnotskurn. Þetta sést hvað best í hinu rólega og stórgóða lagi “Perlur fyrir svín” sem hefur, líkt og segir í textanum, sál í hverjum tóni.Platan er heildstæð og öll hafa lögin þó nokkuð til síns ágætis. Þó skara nokkur þeirra framúr; áðurnefnt “Perlur fyrir svín”, “Neðsta húsið í götunni”, þar sem andi Bobs Dylans svífur yfir vötnum og “Valdimar”, með skemmtilegum vísunum í íslenska stjórnmálasögu, eru allt frábær lög og bera jafnframt flytjendum sínum fagurt vitni. Þó er gítarforspil lagsins “Valdimar” sláandi líkt lagi af plötunni Seventh Heaven frá árinu 2000 með hinum þýskættaða gítarleikara og heimstónlistarmanni Govi, en það er önnur saga.
Besta lag plötunnar er tvímælalaust hið spænskættaða “Svífa”, með glæsilegu gítarsamspili þeirra Halla og Arnar. Textar plötunnar eru flestir mjög góðir, áreynslulausir og einlægir en þó lausir við tilgerð, en yrkisefnin eru oftar en ekki tengd leit einstaklingsins að sjálfum sér.
Platan er tekin upp “lifandi”, sem heppnast einstaklega vel, og kemur það spilagleðinni og tilfinningunni ótrúlega vel til skila. Við hlustun er nánast eins og þeir félagarnir séu komnir inn í stofu til manns og fari mikinn. Jón skuggi, sem stýrir upptökum og hljóðblöndun, skilar hér óaðfinnanlegu verki, og sýnir enn og aftur að hann er einn sá besti, ef ekki sá albesti, á því sviði hér á landi, og þó víðar væri leitað.
Góðar og einlægar lagasmíðar, óaðfinnanlegur hljóðfæraleikur og einstakur hljómur sameinast um að gera þessa plötu að því besta sem Halli Reynis hefur sent frá sér, að plötu sem á aðeins skilið það besta.
Grétar M. Hreggviðsson