Lestin brunar
(Lag: Halli , Ljóð: Jón Helgason)
Lestin brunar, hraðar hraðar,
húmið ljósrák sker,
bráðum ert þú einhversstaðar
óralangt frá mér.
Út í heim þú ferð að finna
frama nýjan þar,
ég hverf inn til anna minna,
allt er líkt og var.
Þú átt blóðsins heita hraða,
hugarleiftur kvik;
auðlegð mín er útskersblaða
aldagamalt ryk.
Einhvers skírra, einhvers blárra
æskti hugur minn,
og þú dreifðir daga grárra
deyfð og þunga um sinn.
En nú liggja leiðir sundur,
ljósin blika köld,
aldrei verður okkar fundur
eftir þetta kvöld.
Gegnum haustsins húmið þétta
hug minn víða ber,
aldrei muntu af því frétta
að hann fylgir þér.
Aldrei spyrðu alla daga
að í kvöld ég hef
ort á tungu ystu skaga
einstök fábreytt stef.
Þegar brátt þín mynd og minning
máist föl og hljóð,
er til marks um okkar kynning
aðeins þetta ljóð.
Allar raddir óma glaðar,
einn ég raula mér;
lestin brunar, hraðar hraðar,
húmið ljósrák sker.