Eftir Halla liggja 10 geislaplötur

 Fyrsti diskur Halla kom út árið 1993 og ber nafnið Undir hömrunum háu. Árið 1995 gaf hann út diskinn Hring eftir hring. Árið 1997 gaf Halli út diskinn Trúbadúr og 2000 gaf hann út diskinn Myndir. Árið 2004 kom svo diskurinn Við erum eins. Árið 2006 gaf Halli út tvo diska, Leiðin er löng og Fjögurra manna far. Halli gaf út diskinn Skuggar árið 2013 og nýjasti diskur Halla sem varð jafnframt sá síðasti sem hann gaf sjálfur út kom út árið 2018 og ber nafnið Ást og Friður. Það var síðan í febrúar 2021 sem platan Söngur vesturfarans kom út. Halli hafði verið búinn að taka upp “demo” söng og gítar þegar hann féll frá. Fjölskylda Halla ákvað að klára verkefnið og útkoman varð tíunda og síðasta geilsaplata Halla Reynis.

Söngur vesturfarans 2021

Platan sem Halli var byrjaður á og fjölskylda hans kláraði að honum látnum og gaf út árið 2021 heitir Söngur vesturfarans

Ást og friður 2018

Síðasta plata Halla sem hann gaf út áður en hann lést heitir Ást og friður

Skuggar 2013

Geislaplatan Skuggar kom út árið 2013. Á þessari plötu má finna áður útgefið efni ásamt nýjum lögum Halla.

Fjögurra manna far 2006

Halli um útgáfuna:
“Þegar ég gerði dreifingarsamning á Leiðin er löng við Músík og myndir bauðst mér samningur á annari útgáfu. Það var allt sett í gang. Skrýtið að gefa út og um leið að fara í upptökur á öðru efni. Bandið mitt sem spilaði með mér á Við erum eins var með mér. Allt tekið upp “live” í hljóðveri eins og flest sem ég hef gert í gegnum tíðina. Albert Ásvaldsson tók upp í Ryk. Ég var sáttur við lögin og textana og þarna eru nokkur af mínum betri lögum að mér finnst sjálfum. Það var ekki átakalaust að fara í gegnum upptökuferlið og láta allt falla saman. Mæli ekki með því að gefa út tvær plötur sama árið. Ég sem hafði í nokkur ár átt notalegt tónlistarlíf var undirlagður í upptökum og útgáfum og spilaði meira en ég hafði gert lengi. Bandið hætti að spila saman og ég fór einn með gítarinn í tónleikaferð um landið og endaði á Café Rosenberg við Lækjargötu og Rás 2 sendi beint út 1.desember, daginn sem ég varð fertugur.”

Leiðin er löng 2006

Halli um útgáfuna:
“Þessi útgáfa er lágstemmd og einföld. Þarna er ég einn með kassagítar og munnhörpu. Þegar ég skoða plötuútgáfur á Íslandi man ég ekki eftir neinni útgáfu þar sem ný lög eru flutt aðeins með einum gítar og engum aukahljóðfærum. Þetta vildi ég gera. Gefa út disk í því umhverfi sem lögin eru oftast spiluð á tónleikum. Ég vildi gamlan hljóm og gæta þess að lögin hljómuðu ekki eins. Ég notaði nokkra gítara til að fá mismunandi hljóm. Útkoman var einfaldleikinn í allri sinni dýrð. Ég var að gera þetta fyrst og fremst fyrir sjálfan mig. Effektar voru nánast ónotaðir til að hafa þetta sem einfaldast. Tvær kvöldstundir og það snjóaði úti allan tímann, það sá ég út um gluggann á meðan ég tók upp. Kannski gerði það þessa ró sem er á disknum. Jón Skuggi tók upp í Mix. Músík og myndir dreifði. Útgáfutónleikar fóru fram á Rósenberg við Lækjargötu.”

Við erum eins 2004

Halli um útgáfuna:
“Eftir að ég flutti heim til Íslands aftur árið 2002 eftir fjögurra ára dvöl í Danmörku tók ég þá ákvörðun að standa og falla með sjálfum mér í tónlistinni. Spila aðeins á tónleikum mitt eigið efni og ég samdi öðruvísi en áður. Ég átti mikið af efni og 2004 var ég farinn að undirbúa upptökur. Örn Hjálmarsson gítarleikari spilaði mikið með mér og svo bættust Jón Skuggi og Erik Qvick í hópinn. Þetta er besta band sem ég hef spilað með á mínum ferli! Við áttum okkar hljóm og tókum lögin upp “live” í hljóðveri Hljóðrita Mix og Jón Skuggi sá um upptökur. Allt “acoustic” og við náðum vel saman. Dómarnir voru glimrandi, 5 stjörnur og mikið lof. Ég hafði allt aðra sýn á tónlist á þessum árum en þegar ég gaf út mínar fyrstu plötur. Allt var yfirvegaðra og ég vissi hvað ég vildi og samdi beur en áður. Í staðinn fyrir að spila endalaust út um allt fór ég í tónleikaferðir og gaf mér svo frí á milli. Útgáfutónleikarnir fóru fram á Nasa.”

Myndir 2000

Halli um útgáfuna:
“Þessi diskur er afrakstur af samstarfi mínu og Þorvaldar Flemming Jensen. Ég bjó í Danmörku frá 1998-2002 og gamall vinskapur okkar Valda var endurnýjaður. Rikki bróðir Valda hafði spilað mikið með mér í gegnum tíðina og við Valdi verið vinir síðan við vorum unglingar en aldrei gert neitt annað saman í tónlist en að glamra á gítarana. Valdi bjó í Kaupmannahöfn og ég á Jótlandi fyrir norða Árósa. Valdi kom í helgarferðir í sveitina til okkar og við vorum óstöðvandi þessar helgar. Þar sem mér fannst ekkert gáfulegra en að gefa út diska og Valdi til í allt vorum við komnir í gang með að undirbúa upptökur. Helgarferðir milli Sjálands og Jótlands urðu tíðar. Ýmist ég til Valda eða öfugt. Þessi tími er ógleymanlegur og sér partur í minningabókinni. Niðurstaðan var Sweet Silence Studios og Flemming “Razz” Rasmussen á tökkunum. Sá maður hafði unnið mikið með Metalica og var goðsögn í þessum heimi. Ég vissi það ekki þá hvað þetta var merkilegur maður en það var gott að vinna með honum. Spilarar komu frá Íslandi og nokkrir danskir session leikarar fengu að vera með. Japís dreifði en fór á hausinn fljótlega eftir það og við fengum aldrei krónu úr því uppgjöri og því fór sem fór. Útgáfutónleikar fóru fram á Gauk á Stöng. Ævintýrið var þess virði.”

Trúbadúr 1997

Halli um útgáfuna:
Þessi diskur varð til af sjálfu sér. Ég fór í Studio Stef til að taka upp nokkur lög einn með kassagítarinn. Ég hafði tekið þá ákvörðun að gefa ekki út disk þetta árið en ætlaði að taka upp nokkur demo og gefa mér til að undirbúa næstu útgáfu. Kvöldvinnan skilaði 20 lögum og allt tekið upp “live” á DAT tæki. Það þýddi að það var ekki hægt að hljóðblanda. Þegar ég hlustaði á lögin fékk ég á tilfinninguna að ég ætti að gefa þetta út. Morguninn eftir gekk ég frá dreifingarsamningi við Japis. Ég fékk Jakob Smára Magnússon bassaleikara til að spila með mér þrjú lög inn aftur. Þetta var hljóðlátari útgáfa en það sem ég hafði áður gert en ég var trúbadúr og fannst rökrétt að gera þetta svona. Útgáfutónleikarnir fóru fram á Fógetanum og Rás 2 sendi beint út. Lífið snerist um tónlist og texta eins og áður og ferðalög, gigg og fleiri ferðalög og gigg.

Trúbadúr - 1997

Hring eftir hring 1995

Halli um útgáfuna:
“Það var allt öðruvísi að taka upp disk númer tvö en þann fyrsta. Nú varð ég að sanna mig sem höfundur og sýna framfarir. Ég fékk Björgvin Gíslason með mér í þá vinnu að útsetja og sá ekki eftir því. Við æfðum saman með Jóni Ingólfssyni og Ríkharði F.Jensen og vorum tilbúnir þegar kom að því að taka upp. Studio Stef var upptökustaðurinn og Birgir Jóhann Birgisson upptökumaður. Diskurinn fékk fína dóma og textarnir mínir fengu lofsamleg ummæli sem var mikið metnaðarmál fyrir mig. Einnig þótti hljómurinn einstaklega góður á disknum. Á þessum tíma spilaði ég mjög mikið og nánst gigg alla daga. Það var mín leið til að kynna tónlistina mína. Ég lærði það eftir fyrsta diskinn minn að það vinnur enginn fyrir mann í þessum bransa. Baráttan var hörð á litlum markaði. Þetta var minn besti skóli því ég fékk reynslu sem er mér dýrmæt. Útgáfutónleikarnir fóru fram á Fógetanum sem var mitt annað heimili á þessum tíma og Rás 2 sendi beint út. Popparalífið var ljúft og súrt og ferðalögin endalaus.”

Undir hömrunum háu 1993

Halli um útgáfuna:
“Ég var 26 ára og spilaði út um allt land og það var nóg að gera. Lög og textar urðu til og ég átti fullt af efni og taldi mig tilbúinn í slaginn. Sem betur fer vissi ég lítið hvað var að fara út í. Ég ákvað að gefa út disk og gerði það og Japís dreifði. Diskurinn var tekinn upp í Gný og Sigurður Ingi Ásgeirsson var á tökkunum. Lögin féllu vel að útvarpi og lagið Þjóðarsálin var spilað mikið á nánast öllum stöðvunum. Öðruvísi en ég komst á vinsældarlista Íslands. Á þessum tíma var ennþá verið að gefa út kassettur og ég lét framleiða 250 kassettur og 1000 diska. Allt seldist og ég náði því markmiði að fá upp í kostnað. Ég er ennþá þakklátur þeim sem unnu með mér og tóku ýmist lítið eða ekkert fyrir til að gera mér þetta mögulegt fjárhagslega. Ég fann mína hillu í lífinu, að lifa hratt og vera út og suður að spila. Það var lífsstíllinn. Diskurinn var spilaður inn af tilfinningu, ekki mikið pælt í flóknum útsetningum. Ég hef oft sagt að Tryggvi Hübner gítarleikari “bjargaði” disknum. Ég var bara strákur með gítar að semja lög og texta og syngja sem var ekkert flókið mál. Útgáfutónleikarnir fóru fram á veitingastaðnum Tveir vinir og annar í fríi. Það var mikil spilagleði.”