Ég var svo heppinn að eignast Halla Reynis að samstarfsfélaga þegar ég kom til starfa við Ölduselsskóla sem skólastjóri haustið 2012 og meðfram samstarfi okkar þróaðist góð vinátta. Halli var ótrúlega skapandi og hæfileikaríkur á mörgum sviðum þó að tónlist og textar standi auðvitað þar upp úr. Hann var söngvaskáld og lögin hans munu án efa halda
minningu hans lengst á lofti.

Mér er þó efst í huga minningin um góðan og skemmtilegan dreng sem lét sér annt um fólkið í kringum sig, börnin í skólanum og samstarfsfólkið. Hann var góð manneskja hann Halli og það er jú, þegar upp er staðið það sem mestu máli skiptir. Hann var góð
manneskja og var góður við fólkið í kringum sig eins og hann gat. Hann elskaði fjölskylduna sína, var óskaplega stoltur af drengjunum sínum og elskaði og virti Steinunni
konuna sína og fann í henni klettinn sem hann vissi að hann þurfti. Eina manneskjan sem,mér vitanlega, hann mat hugsanlega ekki að verðleikum og var ekki nógu góður við var hann sjálfur.

Eins og stundum er með skapandi fólk var opið inn í kvikuna á Halla og tilfinningarnar
sveifluðust í takt við það. Það sást alltaf á honum á kaffistofunni. Stundum var hann hrókur
alls fagnaðar, stundum uppfullur reiði gegn ranglæti og stundum var yfir honum eitthvert
drungaský. Hann átti í sinni baráttu og var ófeiminn að tala um það. Hann var líklega oft
„með óttann innan klæða“ um að tapa þeirri baráttu og kannski varð það honum um síðir
um megn. Já, hún verður oft „banvæn biðin fyrir blásaklausan þegn“ svo ég vísi í texta eftir hann sjálfan.

Og nú er hann farinn úr þessari tilveru – allt of snemma. Hvar sem hann er núna er hann vafalaust velkominn aufúsugestur og örugglega enn með gítarinn í hendi. Ég sakna hans þó
að samband okkar síðasta árið hafi verið minna en skyldi. Það er sárt að missa góðan vin og félaga og eiga ekki framar í vændum spjall um lífið, pólitík, skáldskapinn, smíðar, fótbolta eða annað sem skiptir öllu og engu máli. Eftir sitja ótal góðar minningar og tónlist sem ég mun ylja mér við.

Hugur minn er hjá samstarfsfólki okkar í Ölduselsskóla en einkum fjölskyldunni sem hefur misst svo mikið; eiginmann og föður, félaga og vin. Steina, Steinar, Reynir og Sölvi, megi almættið styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum. 

Kær kveðja, Börkur.