Ásgeir Sævar Víglundsson
October 16, 2024
Kristjana Vilhelmsdóttir
October 16, 2024

Elínrós Benediktsdóttir

Við í Ölduselsskóla kveðjum nú vinnufélaga og vin. Halli byrjaði að kenna í Ölduselsskóla eftir hvatningu frá þáverandi stjórnendum. Hann var þekktur í hverfinu sem tónlistarmaður og dyggur stuðningsmaður ÍR. Halli ákvað að slá til og prófa að kenna í grunnskóla þegar upp kom sú staða að það vantaði tónmenntakennara í skólann. Hann hafði reynslu af því að kenna nemendum á gítar en var annars óreyndur á sviði kennslu. Hann hafði þó strax hugmyndir um hvernig hann vildi haga kennslunni. Hann vildi að tónmennt væri skapandi grein þar sem nemendur fengju tækifæri til að fræðast, upplifa og njóta.

Undanfarin ár kom Halli að uppsetningu á leikritinu í Ölduselsskóla. Í fyrstu aðstoðaði hann með tónlistina, varð svo fljótlega aðstoðarleikstjóri, leikstjóri og í nokkur ár samdi hann einnig handritið, smíðaði leikmynd og hannaði sviðsmynd. Eitt árið stofnaði Halli samspilshóp á meðal nemenda. Í hópnum voru áhugasamir nemendur sem spiluðu á hljóðfæri eða sungu. Hópurinn hittist reglulega, æfði lög og fékk tækifæri til að troða upp við hin ýmsu tækifæri. Halli sá einnig um tæknimálin í Ölduselinu og á hverju ári aðstoðuðu nemendur við þau. Halli leiðbeindi þeim varðandi hljóð og lýsingu og öðluðust þeir mikla hæfni á þessu sviði. 

Halli stofnaði einnig hljómsveit í starfsmannahópnum. Í hljómsveitinni voru starfsmenn sem höfðu gaman að því að spila og syngja lög og troða upp á hinum ýmsu skemmtunum. Í Ölduselinu voru bæði Eurovision-lögin hans Halla tekin upp. Þegar hann komst áfram og svo í úrslitin, bæði árið 2011 og 2013, var mikil gleði og eftirvænting í skólanum. Nemendur og starfsfólk tóku þátt í gleðinni með Halla og studdu hann áfram. Það var ósjaldan sem Halli spilaði undir fjöldasöng á hinum ýmsu skemmtunum hjá starfsfólki og nemendum þeim til mikillar gleði og ánægju.

Hann gat spilað flest óskalög og kunni texta við marga slagara. Á þeim árum sem Halli starfaði í Ölduselsskóla hélt hann reglulega tónleika. Oftast voru tónleikarnir haldnir á Kaffi Rosenberg og mættu fjölmargir starfsmenn til að hlýða á og njóta. Eftir nokkur ár í Ölduselsskóla ákvað Halli að fara í Kennaraháskólann og kláraði grunnskólakennaranámið. Á þeim tíma var námið lengt og útskrifuðust nemendur með meistaragráðu. Halli grínaðist oft með það að hann væri með meistaragráðu í tónlist, leiklist og dansi. Honum fannst gaman að geta sagt að hann væri með meistaragráðu í dansi því það var eflaust það eina sem hann hafði ekki nógu mikið sjálfstraust í. 

Halli kláraði námið með fullri vinnu, smíðaði hús og gaf út eina eða tvær plötur í leiðinni. Það var því aldrei lognmolla í kringum hann og hann snerti við okkur á svo margan hátt. Það er sárt að kveðja en eftir standa margar góðar minningar sem lifa áfram í hjarta okkar. Halli mun alltaf eiga hlut í Ölduselsskóla í skólasöngnum sem er falleg minning um hæfileikaríkan og einstakan tónmenntakennara. Við sendum fjölskyldu og vinum innilegar samúðarkveðjur. 

Fyrir hönd starfsfólks í Ölduselsskóla, 

Elínrós Benediktsdóttir, skólastjóri. 

Elínrós Benediktsdóttir
Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að nota þessa vefsíðu samþykkir þú persónuverndarstefnu okkar.
Nánar