Elsku Halli minn.

Það voru erfiðar fréttir að heyra að þú hefðir kvatt okkur alltof snemma. En þær óteljandi minningarnar sem þú skilur eftir verða mér ómetanlegar. Allar leiksýningarnar sem við
unnum að saman, tónleikarnir hjá samspils hópnum þínum og allir hinir viðburðirnir sem
við unnum að saman í skólanum. Ef það kom fyrir að við vorum fram yfir útivistartíma
okkar þá passaðir þú alltaf upp á að tæknistrákarnir þínir kæmust öruggir heim, ef við
höfðum ekki far heim bauðstu okkur alltaf far þó að sumir okkar væru í hinum enda
hverfisins.

Í þessum bílferðum sagðirðu okkur ýmsar sögur, hvað það hefði verið frábær upplifun að spila fyrir fullum Eldborgarsal Hörpu þegar þú tókst þátt í Eurovision um árið. Hvað þú
værir að bralla í sveitinni hjá þér fyrir vestan og er mér minnisstætt þegar þú sagðir mér
frá því stoltur að þú værir að fara að kaupa þér 66-árgerð af Massey Ferguson-traktor. Svo fékk maður reglulega að heyra hjá þér demo af nýjum lögum sem þú varst að spá í að hafa á næstu plötu eða senda inn í næstu Eurovision-keppni.

Þú kenndir mér að vera ófeiminn við að kanna nýjar slóðir í áhugamálunum mínum. Þú varst alltaf tilbúinn að hlusta þegar maður kom með hugmyndir að því hvernig væri hægt að gera hlutina og leiðbeindir manni ef maður var kominn í ógöngur.

Það verður mér minnisstætt þegar þú hringdir í mig nokkrum árum eftir að ég kláraði grunnskólann og þú baðst mig um aðstoð með tæknimálin þar sem það væri mikið að gera hjá þér og þú hefðir ekki alveg tíma í að sinna þeim. Ánægjan yfir því að þú skyldir hringja í mig og treysta mér fyrir því að koma og aðstoða þig og ykkur í skólanum var gríðarlega mikil. Þú vannst frábært starf í að vera með góðan tækjabúnað og ala upp góða tæknimenn.

Takk fyrir allt, Halli minn, þín verður sárt saknað.

 

Yfir hafið
Læt ég huga minn leita við hafið
horfnum stundum er sköpuðum við.
Manninn ólstu jú mest, niður við hafið
þangað held ég og finn þar frið.
Sorgin köld líkt og úthafsalda,
og hún faðmar mig þétt upp að sér. 

En með minningasæng, ég mun áfram halda
hún vekur upp von og yljar mér.
Hvað þú undir þér nú vel, við hafið
finnst sem sértu hérna enn, með mér.
Ó það sagt ég get með sanni,
hitt ég hef ei betri mann. 

Hvar sem þú ert, vil ég muna þig.
Þú sem hafðir á því lag að gleðja,
og því græt ég það sem áður var.
Lífið endaði skjótt, þurftir að kveðja.
Svo hittumst á ný við stjörnurnar.

(Ævar Unnsteinn Egilsson)

Þinn vinur og gamall nemandi,
Fannar Freyr Eggertsson.