Lyngið er fallið
að laufi
holtin regnvot
og hljóð
kvöldskin á efsta klifi. 

(Snorri Hjartarson) 

Í apríl 1988 kom Steina Magga æskuvinkona mín í heimsókn, með glampa í augum, sagðist hafa hitt Halla Reynis og nú væri alvara á ferðum. Við höfðum kynnst honum löngu fyrr vestur í Dölum á unglinsárum okkar og reyndar vorum við öll saman á fæðingardeildinni í dsember 1966. Ég var ekki sannfærð um að Halli væri nógu góður fyrir Steinu Möggu en ég hafði vitaskuld rangt fyrir mér. Þegar ég kynntist honum betur komu í ljós miklir mannkostir, hæfileikar, hlýja og húmor.

Halli sagði allt sem hann meinti og meinti allt sem hann sagði. Þó gat hann skeytt frásagnirnar eins og kom í ljós þegar ég tók við hann blaðaviðtal í den, og hann sagðist hafa veitt 18 punda lax. Þegar viðtalið birtist spurði hann mig hvort ég hefði virkilega trúað þessu og við hlógum mikið. Ég hafði auðvitað ekki hundsvit á eðlilegri stærð laxa.

Halli átti auðvelt með að kynnast fólki og eignast vini. Ég held að hann hafi ekki gert sér grein fyrir hversu marga hann snerti á lífsleiðinni og hversu mikið hann gaf af sér. Meistararitgerðin hans um Vesturfarana varð mér mikill innblástur þegar ég skrifaði mína ritgerð.

Tónlistin hans var ómetanleg, gítarsnilld hans einstök og eftir hann liggja á annað hundrað lög. Ég verð að minnast á “Hallakvöldin” sem ég hef haldið heima, oftast ein með tónlistina hans í botni og hef sungið hástöfum með (og ég sem aldrei syng).

Nú hefur Halli slegið síðasta tóninn, en ég mun ávallt sjá hann fyrir mér með gítarinn, léttan á fæti með bros á vör. Ég kveð hann með þakklæti og virðingu fyrir allt sem hann var.

Elsku Steina Magga, Steinar, Reynir, Sölvi og fjölskylda, ykkar er sorgin sárust en það er gott að eiga góðar minningar og þær lifa áfram. Við Gylfi sendum innilegar samúðarkveðjur.

Guðrún Vala Elísdóttir.