Í ársbyrjun 2022 hugsaði ég með mér að það væri gaman að geta minnst tónlistarinnar hans Halla bróður míns á einhvern hátt. Upphaflega var hugmyndin sú að leiða saman ólíka tónlistarmenn sem gætu flutt tónlist Halla hver með sínu nefi, ég gæti kannski tekið eitt, tvö lög jafnvel. Engu að síður langaði mig helst að halda þessa tónleika sjálfur, þrátt fyrir að hafa aldrei komið fram ásamt hljómsveit áður.

Tilhugsunin hræddi mig, ég hafði ekki stigið á svið í 18 ár og sjálfstraustið lítið eftir því. Hugmyndin var góð, svo ég hringdi í þrjá aðila sem ég treysti og það stóð ekki á svörum, ég átti að kýla á þetta. Ég lagði upp með að halda eina tónleika og bókaði til þess Bæjarbíó. Halli hafði unnið með mörgum tónlistarmönnum á sínum ferli svo það reyndist mér erfitt að velja menn í hljómsveitina en það hafðist á endanum. Tónleikarnir heppnuðust ótrúlega vel, miðarnir seldust upp og ljóst að ég varð að endurtaka leikinn. 

Ég bókaði Bæjarbíó að ári og aftur seldist upp, ég stefndi á að halda þriðju tónleikana veturinn 2024. Vegna veikinda hjá mér neyddist ég því miður til þess að hætta við þriðju tónleikana. Ég var samt ákveðinn í að gera meira með tónlistina hans Halla og fékk þá hugmynd að gefa hluta af þeim lögum sem flutt voru á tónleikunum út á plötu. Halli var afkastamikill á sínum ferli og gaf út 10 plötur ásamt því að eiga lög á safnplötum og á plötum annarra tónlistarmanna. Hann útsetti, söng og spilaði á plötum annarra, tók tvisvar þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins og komst í úrslit í bæði skiptin. Eftir Halla liggja á annað hundruð útgefin lög.


Ég vil þakka öllum þeim sem sóttu tónleikana og keyptu þessa plötu, því án ykkar hefði þetta ekki verið mögulegt. Að lokum vil ég þakka elsku Halla mínum fyrir að semja þessa tónlist fyrir okkur og vona að þið njótið þess að hlusta.

Kaupa plötuna