Sölvi Haraldsson
October 16, 2024
Linda Björk Ólafsdóttir
October 16, 2024

Gunnlaugur Reynisson

„Gulli, Halli bróðir þinn er dáinn“ eru orð sem eiga seint eftir að gleymast, ef þá nokkurn tímann. Þessir dagar frá því að þessi orð voru sögð eru búnir að vera svo erfiðir því söknuður og endalausar minningar flæða um huga minn. Barnæskan er lituð af góðum minningum um þig enda varla hægt annað, við vorum alltaf saman í öllu sem við gerðum. Þetta voru góðir tímar og dýrmætir í minningunni. Uppátækjasamir, ofvirkir, samtaka og kraftmiklir strákar sem litu meira að segja alveg eins út er blanda sem fær alla foreldra til að verða þreytta, og þannig var það örugglega heima líka. En svona vorum við, alltaf á fullu að leika okkur í fótbolta eða bara hverju sem var. Svona liðu árin þar til að þú fórst í sveit í þrjú til fjögur sumur á unglingsárum. Það átti vel við þig, því þú varst algjör sveitastrákur alla tíð og kunnir best við þig í sveitinni vestur í dölum. En þú varst líka Breiðhyltingur og kallaðir Breiðholtið sveitina þína, samdir meira að segja lag og texta sem heitir „Sveitin mín heitir Breiðholt“ og gafst út á disk. Á þessum árum hittirðu líka hana Steinu þína sem átti eftir að fylgja þér allar götur síðar meir. En þú prófaðir margt annað á þessum árum, tókst grunnnámið í trésmíði, vannst á veitingastöðum, við múrverk og hjá Sól hf. þar sem þú lentir í vinnuslysi sem átti eftir að marka líf þitt alla tíð eftir það, bæði vegna slyssins sem þú varðst fyrir á fætinum og ekki síst vegna þess að þá fórstu að fikta við gítarinn. Með gifsið á fætinum fékkst þú mömmu til að sýna þér nokkra gítarhljóma og eftir það varð ekki aftur snúið. Þarna varst þú byrjaður að semja ljóð og texta og ég held að fyrsta lagið hafi komið eftir að þú gast spilað þrjá hljóma á gítarinn. Eftir þetta fyrsta lag komu lögin og textarnir á færibandi frá þér. Það er eins og það hafi opnast einhverjar flóðgáttir hjá þér varðandi tónlistina og textagerðina.

Þú varst mikill fjölskyldumaður, þú varst svo stoltur af strákunum þínum og Steinu. Það er búið að vera svo gaman að fylgjast með þeim alla tíð í gegnum lífið. Yndislegir drengir hver á sinn hátt, samrýndir og góðir drengir. Fótboltinn er búinn að vera fyrirferðarmikill á ykkar heimili enda allir ÍR-ingar og að sjálfsögðu Man. Utd menn. Þú tókst mikinn þátt í áhugamálum þeirra alla tíð og varst virkur innan ÍR bæði á árum áður og síðar í gegnum strákana þína.

Lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum hjá þér, Halli minn, og ég veit að þú varst búinn að eiga svo erfitt oft á tíðum. Þó svo að umbúðirnar séu sléttar og fínar er innihaldið kannski brotið og í sárum. Þú fékkst þínar byrðar sem reyndust þér of þungar, elsku bróðir minn.

Halli, það er svo sárt að þurfa að kveðja þig en minningar um þig sem tvíburabróður, sveitastrák, tónlistarmann, kennara, fjölskylduföður og hjarthlýja manninn sem mátti ekkert aumt sjá, munu lifa með okkur hinum. Tónlistin þín mun hljóma áfram með okkur um ókomna framtíð. 

Hvíldu í friði. 

Gunnlaugur (Gulli) bróðir. 

Gunnlaugur Reynisson
Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að nota þessa vefsíðu samþykkir þú persónuverndarstefnu okkar.
Nánar