Við Halli kynntumst í gegnum tónlistina fyrir um tveimur áratugum og snérust í fyrstu að mestu um tónlistina.
Halli hafði forgöngu um að við Fræbbblarnir spiluðum í Kaupmannahöfn og við Fræbbblar gáfum út lagið hans „Fölar rósir,“ sem hann söng með okkur. Honum fannst við spila lagið frekar hratt á fyrsta rennsli á sameiginlegri æfingu og ætlaði að stinga upp á að við prófuðum aðeins rólegri gír.
En áður en hann komst að var ég búinn að segja við hann „flott lag, virkar vel … en við þurfum reyndar að spila það talsvert hraðar!“.
En ágæt kynni frá tónlistinni þróuðust fljótt í annað og meira. Við hjónin hittumst reglulega yfir góðum mat, fórum nokkrum sinnum saman í frí og fjölskyldurnar kynntust í framhaldinu, Halli hjálpaði syni okkar, Guðjóni, við upptökur, sat og glamraði á gítar með Viktori og hvatti áfram – og Sölvi kom með okkur og foreldrum sínum til Spánar í eftirminnilegt sumarfrí – svo eitthvað sé nefnt.
Á ensku er víst talað um að klæðast hjartanu utan á erminni, Halli var fullur orku, gefandi, áhugasamur um allt sem hann tók sér fyrir hendur, einlægur og heiðarlegur –
húmorinn alltaf til staðar og hann var óhræddur við að segja það sem honum fannst.
Halli hafði í rauninni allt, góða fjölskyldu, einstaka eiginkonu og hæfileikaríka syni sem hann var stoltur af. Hann var frábær laga- og textahöfundur, kennari sem kveikti
tónlistaráhuga hjá nemendum með óvenjulegri og lifandi nálgun – og skemmtilegur
sögumaður – bæði með og án tónlistar.
Erfiður sjúkdómur kom í veg fyrir að hann yrði lengur með okkur, hans verður sárt saknað, en við eigum allar minningarnar um allar góðu stundirnar og öll frábæru lögin.
Iðunn Magnúsdóttir, Valgarður Guðjónsson.