Elínrós Benediktsdóttir
October 16, 2024
Viðtal við Halla hjá MK-Media
October 16, 2024

Kristjana Vilhelmsdóttir

Ég kynntist Halla árið 2012 þegar ég hóf störf hjá Ölduselsskóla, ég á skrifstofunni og Halli sem tónmenntakennari við skólann. Halli var allt í öllu er varðaði tónlist í skólanum. Hann sá um að spila á sal þegar það voru uppákomur og þegar það var samsöngur á sal. Fallegi skólasöngurinn okkar er eftir Halla. Hann tók þátt í öllum leikritum sem leiklistarval unglingadeildar setti upp á hverju ári. Oftast sá hann um tónlistina en árin 2017 og 2018 voru frumsamin leikrit eftir hann og krakkana í leiklistarvalinu, Hótel hamingja og ári seinna söngleikurinn Húsið, frábær leikrit bæði tvö. 

Halli plataði mig í starfsmannafélagið árið 2016 og vorum við í tvö skólaár í félaginu ásamt nokkrum dásamlegum samstarfskonum okkar og var ýmislegt brallað, kaffistofan skreytt fyrir hrekkjavökuna, vorhátíðir starfsmanna, aðventugleði, árshátíðir og margt fleira. Við skipulögðum m.a. árshátíðarferð til Stokkhólms sem tókst mjög vel og voru margir sem fóru og skoðuðu Abba-safnið. Halli samdi síðar ótrúlega fallegan texta við lag Abba-hópsins, Chiquitita, en hann nefndi lagið Kava í þeirri útgáfu. 

Halli var mjög góður vinur og hafði ótrúlega góða nærveru og vildi öllum vel. Ég á eftir að sakna þess að heyra ekki í honum framar og spjalla um allt milli himins og jarðar. Halli var fæddur tónlistarmaður og hafði þessa náttúrulegu hæfileika. Hann var mjög hugmyndaríkur og frjór og kom það vel fram í listsköpun hans. Lögin og textarnir voru fjölbreyttir og munu lifa með okkur og ylja okkur um hjartarætur. 

Söknuðurinn eftir góðum vinnufélaga er mikill og hans verður sárt saknað í Ölduselsskóla. Takk fyrir samfylgdina og samstarfið. 

Elsku Steina, Steinar, Reynir, Sölvi, fjölskylda og vinir, ég votta ykkur samúð mína. Missir ykkar er mikill. Hvíldu í friði, elsku vinur. 

Kristjana,
skrifstofustjóri Ölduselsskóla. 

Kristjana Vilhelmsdóttir
Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að nota þessa vefsíðu samþykkir þú persónuverndarstefnu okkar.
Nánar