Hann Halli frændi er farinn. Ófá tárin hafa fallið síðustu vikuna og þau síðustu hafa enn ekki fallið. Halli skilur eftir sig stórt skarð í fjölskyldunni sem við þurfum að vera dugleg að fylla upp í með minningum um hann. Þetta er enn svo óraunverulegt og það er skrítið að hugsa til þess að ég sé búin að fara á síðustu tónleikana með honum, heyra hann segja síðustu söguna sína eða sjá hann í koma í síðasta skiptið niður til afa eins og vindsveipur að fá sér kaffi og spjalla.

Halli var mér alltaf kær og fjölskylda hans á sérstakan sess í hjarta mínu, enda passaði ég alla strákana hans á mínum yngri árum og var fyrsta vinnan mín þegar ég var níu ára að passa Steinar og Reyni yfir sumarið ’96. Ég minnist þess sumars með mikilli hlýju og gleði, en Halli og Steina tóku mig með í ferðalag til Akureyrar og í sveitina á Vígholtsstöðum og naut ég þess að ferðast með þeim og strákunum. Þegar Sölvi fæddist tók ég við að passa hann og aftur varð ég smá heimalningur hjá þeim.

Hann Halli var alltaf svo stoltur og montinn af strákunum sínum, enda heilsteyptir og vel mótaðir strákar allir þrír, þeir voru allt sem hann óskaði sér. Heimili hans og Steinu hefur alltaf verið manni opið og alltaf tekið svo hlýlega á móti manni þó að heimsóknunum hafi fækkað síðustu ár. Samverustundirnar hjá fjölskyldunni hafa verið margar síðustu daga og margar minningar um Halla hafa verið rifjaðar upp og höfum við bæði grátið og hlegið saman yfir þeim.

Mikið hefur verið hlustað á tónlistina hans Halla og hefur það veitt manni hlýju í gegnum þessa erfiðu daga. En nú er komin ró hjá honum elsku Halla okkar. Þín er svo sárt saknað, elsku Halli frændi. Elsku Steina, Steinar, Reynir, Sölvi, Íris og Alda, amma og afi, mamma, Linda og Gulli og bara öll fjölskyldan okkar, það er búið að vera erfitt að kveðja elsku Halla okkar en ástin og hlýjan sem kemur frá samveru okkar hjálpar okkur í gegnum sorgina. Ég elska ykkur öll. 

Kristrún frænka.