Við kveðjum hann Halla „litla bróður“ minn í dag. Ótímabært en gerðist. Hvar man ég þig fyrst? Var það hoppandi á bleyjunni við tóna Svens Ingvars?
Var það að finna leiðir til að opna barnalæsinguna á útihurðinni? Stóll og kústur, einfalt. Grátandi á gæsluvellinum svo heyrðist heim þar til „stóra litla systir“ kom til bjargar? Og svo talandi, hlæjandi, talandi, hlæjandi, talandi…
Svo eltist þú, fannst þig í tónlistinni, fannst Steinu Möggu og lífsbrautin eins og hún var þá blasti við. Stofna fjölskyldu, eignast börn, koma sér upp húsnæði og finna sér viðurværi. En í þér bjó neisti, órói og sköpunarkraftur svo sterkur að erfitt var að finna honum útrás. Og í kollinum voru alltaf fleiri hugmyndir fleiri lög, fleira sem hægt var að gera, skoða, rannsaka, vinna, framkvæma, skapa og og og. En svo var allt búið. Þú ert farinn.
Hvíl í friði, elsku bróðir.
Linda Björk Ólafsdóttir.