Það sem ég mun sakna hans pabba. Það sem hann kenndi okkur bræðrum og það sem hann skildi eftir sig er svo mikið. Ég veit að allir sem þekktu hann munu sakna hans því hann var góður og yndislegur maður. Við pabbi vorum oft bara tveir saman í sveitinni og fórum í margar fjórhjólaferðir og veiðiferðir saman. Stundum bara við tveir og stundum með öðrum eins og til dæmis Jóa í Gröf. Pabbi elskaði að fara á fjórhjólinu fram á heiði með veiðistöng og nesti.
Pabbi minn var ljóðskáld, kennari og tónlistarmaður. Í sumar þegar ég og pabbi vorum tveir fyrir vestan spurði hann mig: „Sölvi, þegar þú hlustar á lög, hlustar þú þá meira á lagið eða textann?“ „Tjaaaa, lagið,“ svaraði ég. Hann var hins vegar ekki sammála og sagðist alltaf hlusta meira á textann.
Það var vegna þess að pabbi skrifaði texta og ljóð á hverjum degi og sagði að maður ætti að hlusta á textann í lögum. Svo þegar maður hlustar á textana hans skilur maður hvað hann meinar með því.
Ég vildi óska að ég gæti kvatt hann, knúsað hann og spjallað einu sinni enn við hann.
Ég ætla að enda á einni setningu í lagi hjá pabba sem ég held mikið upp á:
Ég vildi að ég hefði séð hann sem á
endanum brást,
við köllum það hamingju við köllum
það ást.
Hvíldu í friði, elsku besti pabbi.
Þinn Sölvi.