Hér er á ferðinni viðtal við þá Gulla Reynis, Sigurgeir Sigmunds og Jóhann Ásmundsson. Tilefnið var lokavinna við plötuna Söngur vesturfarans eftir tónlistarmanninn og skáldið Halla Reynis. Platan mun koma út síðar í febrúar 2021.

Söngur vesturfarans er verkefni sem nær aftur til ársins 2015 og er beint framhald af lokaverkefni Halla Reynis í meistaranámi hans við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Var þetta í fyrsta sinn sem hluti útskriftarverkefnis frá menntavísindasviði var verklegur. Verklegi hluti lokaverkefnisins var í formi söngleiks þar sem í fimm frumsömdum lögum og textum ásamt lesinni sögu var sögð saga vesturfaranna sem fluttu frá Íslandi og vestur um haf í kringum aldamótin 1900.

Eftir útskrift frá háskólanum fékk Halli þá hugmynd að gefa út plötu með lögunum úr söngleiknum og samdi þá fleiri lög um sama efni svo úr yrði 10 laga plata. Árið 2017 tók hann upp vinnuupptökur (demó) af þessum 10 lögum sem hann ætlaði eingöngu að nota sem slíkar og stóð til að hefja raunverulegu upptökurnar á lögunum um það leyti sem Halli féll frá í september árið 2019. Halli lagði mikla áherslu á að textarnir yrðu góðir og einhverjir textar höfðu tekið breytingum frá því vinnuupptökurnar voru gerðar, en þar sem ákveðið var að nota upptökurnar frá 2017, þá eru það upprunalegu útgáfurnar af textunum sem hljóma á plötunni.

Eftir fráfall Halla kom fljótt upp sú hugmynd að halda áfram með þessa vinnu og gefa plötuna út. Gulli tvíburabróðir Halla tók að sér að leiða verkefnið og kom fljótt í ljós að vel var hægt að nota vinnuupptökurnar með söng og gítarleik Halla sem grunn og fengi rödd hans því að hljóma á þessu síðasta tónlistarverki hans. Jóhann Ásmundsson fékk það hlutverk að stjórna upptökum ásamt því að spila og útsetja og á hann þakkir skildar ásamt Sigurgeiri Sigmundssyni sem spilaði á gítara og kom einnig að útsetningum laganna og þeim Vigdísi Jóndsdóttur, Erik Quick og Dan Cassidy sem öll léku á hljóðfæri.

Það er von okkar fjölskyldu og bestu vina Halla Reynis að þið njótið þessarar tíundu og síðustu plötu hans.

Ást og Friður ❤