Útgáfan Hring eftir hring

Hring eftir hring

Fréttablaðið Tíminn, umfjöllun um diskinn 28.10.1995:

“Besta auglýsingin er að spila á sem flestum stöðum og láta fólk sjá mig með gítarinn. Þá skiptir heldur engu máli hvað staðurinn heitir, heldur taka þeim boðum sem bjóðast,” segir Breiðhyltingurinn og trúbadorinn Halli Reynis, sem nýverið gaf út sína aðra sólóplötu sem hann nefnir “Hring eftir Hring”.

Eins og svo margir aðrir hafa gert á seinni tímum, þá fjármagnar Halli sjálfur útgáfu plötunnar, en Japis sér um dreifinguna. Alls eru tíu lög á plötunni, en spilatími hennar er um 40 mínútur. Nær öll lög og textar eru eftir Halla. Hinsvegar þarf ekki að hlusta lengi á plötuna til að fá það á tilfinninguna að helstu áhrifavaldar hans af innlendum vettvangi eru menn eins og Bubbi Morthens og Bjartmar Guðlaugsson. Tónlistin er slétt og felld, rennur mjúklega í eyru og venst mjög fljótt. Ef eitthvað er, þá vantar kannski meiri frumleika, krfat og ögrun til þess að platan nái að skapa sér sérstöðu á markaðnum umfram það að vera eftir Halla.

Aðspurður segist hann ekki óttast það að hann muni eiga í einhverjum erfiðleikum með að fá þá “stóru í bransanum” til að stilla plötunni á áberandi stöðum í plötubúðunum, þannig að eftir henni verði tekið. Í því sambandi vitnar hann til reynslu sinnar við útgáfu á sinni fyrstu plötu, sem kom út fyrir tveimur árum.

Einn helsti samstarfsmaður Halla á nýju plötunni er sjálfur Björgvin Gíslason gítarleikari, sem stjórnaði upptökum, auk þess sem hann er skrifaður fyrir útsetningum ásamt Halla. Upptökur fóru fram í Studio Stef á tímabilinu febrúar-mars í ár. Halli er mjög ánægður með samstarfið við Björgvin, sem og aðra þá tónlistarmenn sem koma við sögu á plötunni. Sjálfur segir Halli mjög vandað til plötunnar og bendir m.a. á að hann gef sér góðan tíma við gerð hennar og hætti m.a. við útgáfu um síðustu jól.

Kjarftfullt var á útgáfutónleikum Halla á Fógetanum fyrir skömmu og m.a. þessvegna er ráðgert að halda aðra útgáfutónleika á sama stað í næstu viku. Til að kynna plötuna verður Halli á fullri ferð næstu daga og vikur; t.d. verður hann í Vestmannaeyjum um næstu helgi. Eftir því sem aðstæður leyfa mun hann einbeita sér að landsbyggðinni í næsta mánuði, en í desember er kúrsinn settur á höfuðborgarsvæðið, fjölmennasta markaðssvæðið. – grh

Tíminn, úrklippa 28.10.1995 (timarit.is)

Textarnir og hljóðbrot