Halli Reynis, frændi minn, er fallinn frá, langt um aldur fram; Reynir, faðir Halla, og ég erum systkinabörn. Við Halli vorum báðir í sveit á Erpsstöðum hjá þeim sæmdarhjónum Gunnhildi Ágústsdóttur og Hólmari Pálssyni, ég búinn að vera nokkur sumur á undan en var alltaf viðloðandi sveitina, kom um páska og fór í smalamennsku á haustin. Eina páskana böðuðum við allt fé inni í fjárhúsi. Halli hló mikið að mér fyrir göslaganginn því að ég fór
stundum á bólakaf með kindunum.
Vinskapur okkar var góður. Við fórum mikið í veiði í Ljárskógavötn og Haukadalsvatn. Halli var lunkinn veiðimaður. Hann var svo lifandi og skemmtilegur persónuleiki og sá oft spaugilegu hliðarnar á fólki. Hann var einnig góður íþróttamaður, sérstaklega í knattspyrnu og golfi. Þegar hann slasaðist á fæti var hann heima lengi og tók ástfóstri við gítarinn. Eitt sinn spilaði hann hjá mér á veitingastað á Seltjarnarnesi. Kom þá gestur frá krá uppi á Höfða og skildi ekkert í því að sami maður væri að spila á tveimur stöðum. Þá var Gulli, tvíburabróðir Halla, að spila sama kvöld.
Ég var stoltur af Halla og hvað hann var duglegur að koma sér upp bústað vestur í Dölum, búinn að mennta sig í tónlist og orðinn kennari. Allt sem hann tók sér fyrir hendur gerði hann vel.
Síðast hitti ég hann á tónleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Hann hafði þroskast svo vel sem tónlistarmaður og átti auðvelt með að segja sögur af tilurð laganna. Við systkinin fórum öll á þessa frábæru tónleika. Alltaf þegar við Halli hittumst tókum við hvor utan um annan. Halli var stoltur af sínu fólki og þótti mjög vænt um Dalina.
Ég vil fyrir hönd aldraðrar móður minnar og systkina þakka Haraldi Reynissyni fyrir samfyldina. Við vottum Steinunni og stórfjölskyldunni okkar innilegustu samúð. Hvíl í friði vinur.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Ásgeir Sævar Víglundsson.