Elsku Halli minn! Það er svo stutt síðan þú hringdir í mig. Eins og svo oft áður til að ræða tónlist og texta. Síðan við kynntumst fyrir 15 árum höfum við sent hvor öðrum upptökur alveg hægri vinstri. Lifandi samband, oft rafrænt á milli landshluta. Nú síðast 9. maí sendir þú mér tvö lög.
Það er svo stutt síðan við sátum saman í Breiðholtinu, sveitinni þinni. Við ræddum eins og svo oft áður, tónlist, texta og heilsuna. Skömmu seinna hittir þú mig á heimili dóttur minnar í Reykjavík. Þú varst að fara yfir texta sem þú samdir fyrir mig og sýna mér Martin gítarinn þinn. Þú keyptir einmitt Martin-gítar fyrir mig, fyrir löngu.
Leiðir okkar lágu saman þegar ég var veitingamaður í Egilsbúð þar sem ég hélt sex ár í röð trúbadorahátíð. Með okkur tókst strax góður vinskapur, eitthvað sem ég get ekki skýrt. Við urðum meira en viðskiptafélagar og sambandið hélt þó að engin væru viðskiptin. Þú bauðst til þess að gera með mér plötu. Ég var alveg óvænt kominn með nýjan tónlistarfélaga sem var alveg hokinn af reynslu. Mikið var ég heppinn. Platan kom út árið 2007. Þú átt mikið í þessari plötu, miklu meira en þessi tvö lög sem þú lagðir í púkkið. Þú fórst út fyrir þægindarammann, stýrðir upptökum, spilaðir á rafgítar, tókst gítarsóló, spilaðir á mandólín auk þess að útsetja þetta allt meira og minna. Þú varst svakalega vel stemmdur allan tímann. Þú bauðst mér að gista heima hjá ykkur Steinu og strákunum á meðan á þessari vinnu stóð.
„Þetta er svo náið ferli og mikil vinna, það er best að við sofum saman líka“ sagðir þú og hlóst. Ég þáði það og þetta var yndislegur tími. Ég get aldrei fullþakkað ykkur vinskap og hjálpsemi, elsku Halli og Steina.
Þegar platan kom úr framleiðslu sóttir þú diska handa okkur. Ég kom fljúgandi suður, þið feðgar tókuð á móti mér á flugvellinum og Sölvi, litli sonur þinn, rétti mér fyrsta eintakið. Ég gleymi því aldrei.
Svo fylgdum við plötunni eftir og þú komst austur, gistir að sjálfsögðu hjá okkur Gunnu, varst einu sinni í heila viku. Það var góður tími. Við spiluðum nokkra tónleika fyrir austan, fórum út að skokka saman og nutum lífsins í sveitinni minni.
Það var margt sem tengdi okkur. Þú hringdir í mig fyrir nokkrum árum og spurðir: „Gummi, þú ert menntaður kennari er það ekki?“ Ég jánkaði því en sagðist aldrei hafa kennt. „Ég er byrjaður að kenna og það er alveg frábært!“, sagðir þú og ég fann hvað þú varst stoltur. Næst þegar ég kom suður bauðstu mér að skoða skólann og sérstaklega tónfræðistofuna þína. Þarna leið þér vel.
Í huga mínum varstu snillingur, ég er ekki í vafa um það. Ég hef engan heyrt plokka gítar jafn vel eða jafn hratt, allavega ekki í návígi. Einstakur söngvari og hvernig í ósköpunum gastu munað alla þessa löngu ljóðabálka bæði eftir þig og aðra? Ég vildi að þú hefðir betur skilið hvað þú varst í raun mikið númer en kannski vissirðu það?
Þú gerðir svo miklu meira fyrir mig en sjálfsagt þykir. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.
Ég votta Steinu, Steinari, Reyni, Sölva, fjölskyldu og vinum mína dýpstu samúð.
Guðmundur
Rafnkell Gíslason.