Elsku Halli minn, orðin mín eru máttlaus og innantóm á þessari stundu. Þú skilur eftir þig svo stórt skarð í lífinu og það er svo óraunverulegt að þú sért farinn frá okkur. 

Þvílík gullnáma sem það var að fá ykkur öll í kaupbæti með Steinari mínum. Allt frá fyrsta degi vorum ég og þú miklir og góðir vinir, sem mun alltaf vera mér kært. Eins og allir sem þekktu þig vita varstu einstaklega góður maður sem var alltaf til í að hjálpa, sama hvert verkefnið var.

Ég vildi óska þess að við hefðum getað átt fleiri ár saman. Það sem eftir situr er mikið þakklæti fyrir allar stundirnar, minningarnar og hláturinn, allar sögurnar sem þú áttir til að segja mér oftar en einu sinni og fyrir strákana þína og Steinu sem eru mér svo dýrmæt.   

Ég skal lofa þér að sjá til þess að lillan okkar og þau sem seinna koma munu vita hvað Halli afi var einstakur, skemmtilegur og góður maður og tónlistin þín mun fá að hljóma á heimili okkar um ókomin ár. 

Góða ferð. 

Þín 

Íris.