Þegar þú kynntist yndislegu systur minni fyrir rúmum 30 árum varðst þú stór partur af fjölskyldunni og áttir að vera það um ókomna tíð en nú er stórt skarð komið í hópinn okkar. 

Þau eru ófá listaverkin sem þú skilur eftir hjá okkur en það fallegasta og besta eru duglegu strákarnir ykkar sem þú varst svo óendanlega montinn af. 

Það er erfiðara en orð fá lýst að kveðja þig. 

Ég bið Guð að gefa þér ljós og frið. 

Þessi meðalvegur
sem við leitum öll að,
er svo grýttur og tregur,
erfitt að komast að. 

Á meðan við leitum
finnum við margt,
hvað lífið er fallegt
en líka svo hart. 

Með bænum til Guðs
við náum oft hátt,
getum þá brosað
og tekið sorgina í sátt.

Elsku Steina Magga, Steinar, Reynir, Sölvi, Íris, Alda og fjölskylda, þið eigið hug minn allan og ég mun gera allt sem ég get til að vera til staðar. 

Elska ykkur. 

Sigurborg (Bogga).