Útgáfan Undir hömrunum háu

Undir hömrunum háu

Halli um diskinn

Þegar ég ákvað að taka upp fyrsta diskinn hafði ég enga hugmynd um hvað ég var í rauninni að fara út í. Þessi diskur var tekinn upp og útsettur um leið. Það var skemmtileg blanda af tónlistarmönnum sem  spiluðu með mér á þessum diski og það skilaði sér þegar upp var staðið.  Þetta var diskur spilagleðinnar.

Það var mér til happs að lögin fengu mjög góða útvarpsspilun sem er að sjálfsögðu besta auglýsingin. Eitt lagið náði að komast á vinsældarlista og sitja þar í þrjár vikur, á því átti ég ekki von  í byrjun verks, svo þetta var allt mjög spennandi. Þetta var sem sagt útvarpsvænt.

Þar sem ég gaf þennan disk út sjálfur, borgaði ég þetta úr eigin vasa og þegar diskurinn kom svo á markað voru engir peningar til að setja í auglýsingar. Ég lagði land undir fót, einn með gítarinn og spilaði mjög mikið frá september til desember. Það virkaði, og ég náði mínu takmarki, að ná athygli. Á ólíklegustu stöðum tróð ég upp með látum til að ná eyrum væntanlegra kaupenda. Það kostaði sitt að keyra svo stíft, svo ég lét 1994 líða án þess að gefa út disk.
Frá mér fóru þó tvö lög á safndiskinn Já takk, sem Japís gaf út.

Þar var með mér sami kjarni og spilaði inn á Undir hömrunum háu. Ég fékk Tryggva Hubner til að útsetja þessi lög og varð útkoman mjög góð, en annað lagið, Allt sem ég óska mér, er eitt mest spilaða lagið mitt í gegnum tíðina. Tryggvi er frábær tónlistarmaður, galdramaður á gítar og önnur hljófæri.

Textarnir og hljóðbrot