Fannar Freyr Eggertsson
October 16, 2024
Guðrún Vala Elísdóttir
October 16, 2024

Æskuvinkonur úr Breiðholti

Okkur vinkonunum brá mjög við er við fréttum að Halli Reynis æskuvinur okkar væri látinn.
Við kynntumst honum í gegnum Steina æskufélaga hans er Sessa byrjaði með Steina í
kringum 1982. Við kynntumst Halla mjög vel því Halli og Steini voru alltaf saman á þessum árum og við vinkonurnar eyddum miklum tíma með þeim. Ýmislegt var brallað: rúntað á Coltinum hans Steina út um allan bæ og niður á plan. Í þessum ferðum spiluðum við músík af kassettum, hlýddum mikið á t.d. Bubba Morthens, Simply Red, UB40, Phil Collins, Bowie
og iðulega sungum við hástöfum með í bílnum og var glatt á hjalla.

Við fórum í margar útilegur með Halla, t.d. í Þórsmörk, Húsafell og á Þingvelli. Oft talaði Halli um Dalina, sem hann hafði tekið ástfóstri við. Hann hafði farið á sveitaböll þar, átti
þar rætur og smíðaði sér síðar fallegt sumarhús þar. Við eyddum mörgum stundum saman heima hjá einhverju okkar og var mörgum notalegum og ógleymanlegum kvöldstundum eytt í að hlusta á tónlist og spila á gítar sem Kristín hafði eignast og Halli var hugfanginn
af.

Við skemmtum okkur saman á gamlárskvöld mörg ár í röð. Stundum fórum við í bíó, horfðum á hryllingsmyndir heima hjá Halla eða einhverri í vinkvennahópnum. Síðan var
rætt um myndirnar á eftir. Halli var ómissandi í félagsskapinn okkar. Þegar Sessa og Steini
hættu saman á föstu, þá hélt samt vináttan við Halla áfram í mörg ár á eftir, og hann kom í
hittinga,partí og veislur alveg þar til flestar okkar voru komnar í sambúð og með ung börn, en fljótlega upp úr því kynntist hann Steinu sinni og þá fór samband okkar við hann að
minnka, eins og gengur og gerist í lífinu.

Halli var einstakur. Hann var alltaf glaðbeittur, frjór og hugmyndaríkur. Á þessum tíma var hann ekki byrjaður í tónlist, en hafði augljóslega mikinn áhuga og þessi hópur gerði einmitt
mikið af því að hlusta á alls konar tónlist. Halli var mjög skapandi persóna, og hafði hlýja
góða og heilandi návist. Það var aldrei neitt vesen kringum hann, og hann var einstakur
vinur okkar allra. Hann talaði oft mikið um áhugamál sín, hafði skoðanir á öllu en alltaf á
jákvæðan hátt, alveg sama hvað, þá heyrðum við hann aldrei hallmæla neinum eða tala illa
um neinn. Það var gaman að vera í kringum Halla og alltaf var verið að gera eitthvað
áhugavert og skemmtilegt eða bara spjalla og hlæja saman.

Elsku Halli, hjartans þakkir fyrir vináttuna og samfylgdina kæri vinur. Við munum aldrei
gleyma þér.

Við biðjum guð að styrkja og blessa Steinu eiginkonu Halla og syni þeirra þrjá í þessum mikla missi og sorg.

Þú ert farinn en ég er hér.
Skuggi sem að líkist þér,
er hér alla daga hverja nótt.
Blómin fölnuð, ryðguð hlið,
enginn til að tala við 

Ég heyri í þér samt en allt svo hljótt.
Í garði mínum rotin beð
enginn til að syngja með.
Minningin um þig er allt mitt ljós. 

Augun eins og stjörnur tvær gleðin líkt og lindin tær
andlitið sem nýútsprungin rós.
Allt hið góða er í þér.
Allt það sem þú vildir mér.
Eins og verið hefði í gær. 

Draumurinn sem hjartað grær,
er þokast aðeins nær og nær.
Ef ég hefði vængi
þá kæmi ég til þín. 

Ef ég hefði vængi
þ
á flygi ég í myrkrinu til þín.
Gegnum skýjamúrinn klíf,
til að eiga með þér líf.

(Halli Reynis) 

Frá æskuvinkonum Halla úr Breiðholti; 

Sesselja Björk Barðdal, Kristín Ragnhildur Sigurðardóttir, Edda Þórðardóttir, Esther Hlíðar Jensen, Ásta María Jensen, Kristín Þórðardóttir og Elín Ellingsen. 

Æskuvinkonur úr Breiðholti
Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að nota þessa vefsíðu samþykkir þú persónuverndarstefnu okkar.
Nánar